Eftir Jón Hlöðver Áskelsson, skrifað 13. maí 2015 í tilefni 25 ára afmælis MA-hátíðarinnar.
Þeir sem luku stúdentsprófi frá MA 1965 voru um margt dálítið öðruvísi, allavega fannst mörgum það í hópnum. Aldrei verður þetta sannað endanlega en sumt í háttalagi hópsins bendir þó sterklega til að svo hafi verið. Hugsanleg skýring á þessu er að flest fæddust eftir að heimsfriður komst á en vorum þó flest búin til á ófriðartímum. Allavega stóð þessi hópur fyrir ýmsu sem ekki hafði tíðkast í MA áður.
Eitthvað umrót unglinga í heiminum hefur trúlega orðið til þess að einn okkar, Rafn, tók fyrstur upp bítlahártísku í fjórða bekk, mætti þannig haustið 1962 og hélt þeirri klippingu löngum. „Öðruvísi“ tilhneigingin ágerðist verulega í fjórða bekk, en þá komu í heimsókn menntskælingar frá Vesterås og þeir voru að því leyti öðruvísi en við að þeir kunnu sænsku og voru góðir jazzarar. Þeir slógu okkur öll kylliflöt með frábærum stórsveitartónleikum í Samkomuhúsinu og dýrindisdansleik í setustofu heimavistarinnar.
Þegar hrifningin fór að renna af okkur fór sú umræða í gang hvort við gætum ekki verið „öðruvísi“ og endurgoldið þessa för og farið þar með í fyrstu skipulagða utanlandsbekkjarferð íslenskra menntaskólanema. Við vorum dyggilega studd af Þórarni skólameistara og helst finnst mér að þeir kollegar skólameistarinn frá Vesterås og hann hafi kvaðst árið áður með þeirri ósk að heimsóknin yrði endurgoldin.
Satt best að segja var eins gott að hvorki fyrirhyggja né reiknikúnstir stóðu í vegi fyrir framkvæmdum. Og þó þarna kom „öðruvísi“ genið til góða. Í fyrsta skipti í sögu MA var heimilað að selja bæði kók og heitar pylsur í löngu frímínútum, afgreiddar úr lítilli kompu að vestanverðu á ganginum í gamla skóla, rétt norðan við kennarastofuna. Allavega fékk pylsugengið að fara korteri fyrr úr tímanum fyrir löngu frímínútur til að hita pylsur og brauð. Mér finnst að reynt hafi verið að velja klára nemendur, sem þyldu að missa þetta af tímum, allavega finnst mér að Gunna Árna hafi orðið oft fyrir valinu.
Það má segja að margt hafi orðið öðruvísi þennan vetur, Haukur Heiðar sem þá þegar var öðruvísi, hélt uppi fjörinu með HH kvartettinum á Hótel KEA og á dansleik sem við héldum til fjáröflunar fyrir ferðina tróð Ómar Ragnarsson í fyrsta skipti upp með Hauki Heiðari. Haukur Heiðar sem er „öðruvísi“ læknir, þ.e. læknir m. píanóáráttu, hefur leikið síðan með Ómari alla ævi.
Auglýsingablað var gefið út í fyrsta skipti í MA og borið í öll hús á Akureyri. Þá var ekkert sjónvarp og engin sjónvarpsdagskrá, við vorum semsagt ein um hituna. Ekki mátti minna vera, en að fara í alþjóðlegt útboð með flugið og varð það ekki til að gleðja stjórn Flugfélags Íslands að þessi krakkagrey skyldu taka tilboði norska flugfélagsins Braathen, sem varð raunin á.
Einhvern veginn varð svo að svara tónlistaráskorun þeirra jazzgeggjaranna á Vesturási, en svo heppilega vildi til að Ingimar Eydal hafði æft okkur fjóra skólabræður mig, Jóhannes Vigfússon, Hauk Heiðar og Valtý Sigurðsson í brúklegan kvartett þá um veturinn. Kvartettinn var m.a. sigldur, búinn að heimsækja Siglufjörð með Drangi, og mátti kallast góður að sleppa þaðan fullskipaður úr grenjandi norðanstórhríð með hafísinn liggjandi fyrir Norðurlandi.
Kvartettinn náði að „svinga“ nokkuð vel sér í lagi var það í sænska laginu „Der gingo tre Jäntor“ þar sem hann náði góðu dilli og Valtýr með sínum bassaeinsöng heillaði marga. Nú þetta var aldeilis fínt í þá sænsku, því áður höfðu Delta Rhythm Boys slegið í gegn með þessu lagi í Stokkhólmi. Ingimar komst ekki með út og hið mikilvæga hlutverk píanistans fékk hún Fríða Sam í hendur og skilaði því með prýði. Við strákarnir sungum alltaf Fríða með stórum staf þegar kom að sonnettu Jónasar „blásið þið vindar hlýtt að kinnum Fríðu“.
Nú við vorum líka „öðruvísi“ og fengum að syngja fyrstir íslenskra sönghópa í beinni útsendingu úr útvarpinu á Vesturási. Engin komu nú samt atvinnutilboðin. Þessi samstillti bekkur náði ekki að þjálfa saman áratökin eftir þessa mögnuðu utanför, en ferðin varð flestum þó góður aflgjafi, dró þó eitthvað úr námsárangri sumra. Ég minnist þess ætíð að hafa tekið á móti verðlaunum úr hendi Þórarins Björnssonar við brautskráningu okkar 17. Júní 1965, sem voru einu peningaverðlaunin í boði, raunar afgangur af ferðasjóðnum til Vesterås og varð mér hvatning til nýrra ævintýra því upphæðin var jafnvirði flugs til Evrópu sem hefur ugglaust orðið til að auðvelda mér ákvörðunina að halda til tónlistarnáms erlendis síðar.
Nú víkur sögunni að júbeleumhaldi okkar, þessa „öðruvísi“bekkjar. Við höfðum vart náð upp fyrra hópefli þegar haldið var til Akureyrar á tíu ára stúdentsafmælið. Fólk ennþá bundið við að vera að ljúka, eða að hafa nýlokið háskólanámi, ljúka sínum masterum, doktórum, með fjölskylduáhyggjur, húsbyggingastreitu, skuldabasl og alls kyns vandamál. Gátum hreint ekki verið öðruvísi.
Eitthvað hresstist svo bekkurinn fimm árum síðar, neyddist þó til að vera öðruvísi, og fagna á Bifröst í Borgarfirði, því ekki reyndist vera pláss fyrir hann í gistihúsum á Akureyri og aflögð öll fjárhús. Samt var þetta ljómandi skemmtilegt að sögn þeirra sem mættu.
Þegar styttast fór í 25 ára júbeleum þótti ekki lengur við hæfi að vera öðruvísi, enda hvorki útskrifuð frá Bifröst né Þingvöllum. Gamla góða „Terían“ hafði löngum reynst hugmyndagefandi og reyndist sér í lagi öllum vel sem orðið höfðu sér úti um læknisvottorð úr leikfimistímum forðum.
Nú ræddu nokkur skólasystkini búsett á Akureyri í þessu „syndanna“skjóli um hvað skyldi nú til bragðs taka og hvernig mætti hafa annan hátt á samfundum júbilanta að þessu sinn. Einkum þótti afleitt að jafnt yngri sem eldri MA stúdentar mættu ekki blanda geði á þeim stað þar sem leiðir þeirra höfðu skilið, á ævinnar stóru eyktarmörkum. Við bundumst fastmælum að stefna að því að sameina alla MA júbilanta á veglegri samkomu á Akureyri þ. 16. júní, þar sem reynt yrði að ná saman öllum júbeleumárgöngum, allt frá eins árs stúdentum og uppúr. Þetta skyldi vera framlag okkar 25 ára júbilanta það árið og ef vel tækist til yrði keflið afhent 25 ára júbilöntum næsta árs.
Var þetta ekki óðs manns æði og eingöngu tilraun til að vera öðruvísi? Ef til vill, en góð lausn reyndist þó skammt undan. Það kom sér vel að Bautamenn höfðu þegar öðlast dýrmæta þjálfun í að sjá um stórveislur í tvígang í Íþróttahöllinni, einnig hafði KEA haldið þar mikla 100 ára afmælisveislu með mat og kaffisamsæti fyrir mörg hundruð manns.
Þar sem Stefán Gunnlaugsson, Stebbi á Bautanum, er einn af þessum öðruvísi árgangi og hafði haft umsjón með tveimur stórveislum þarna var sjálfsagt að ræða við hann. Ekki skorti áhugann þar á bæ yfir góðu matarboði hans á Bautanum fóru hjólin að snúast og gerður listi yfir mikilvægustu framkvæmdaþætti.
Ég fór á fund skólameistara, Jóhanns Sigurjónssonar, og strax vakti hugmyndin áhuga hjá honum og samstarfsfólki hans. Við vorum bókstaflega hvött til að láta hendur standa fram úr ermum bæði af forsvarsmönnum skólans og ýmsum öðrum sem skólanum tengdust og aldrei skorti á viljann í verki. Fundirnir og hlaupin í kring um þetta urðu reyndar fleiri en mann óraði fyrir, en oft er það hvatinn að slíkri framkvæmd að sjá verkefnið sem heild, en ekki sem samlaningu allra hlaupanna sem því fylgdu.
Snorri Pétursson varð okkar erinreki og hinn dyggi samstarfsmaður í Reykjavík. Hann tók virkan þátt í undirbúningnum og var hér fyrir norðan síðustu vikurnar fyrir hátíðina við að leggja lokahönd á verkið. Svo var það lán í óláni að ég hafði fatlast eftir höfuðaðgerð í Reykjavík haustið 1989 og hafði nú nægan tíma aflögu, hættur brauðstritinu. Auk þess átti ég eftir tímabil í endurhæfingu á Grensásdeild, þar sem ég gat prýðilega æft mig með gömlu kvartettbræðrum mínum þeim Hauki Heiðari og Valtý, reyndar var of langt að ná í Jóhannes frá Sviss.
Ég man ekki betur en allt hafi gengið skafið nema nótur vantaði af Maybe I’m right, en því bjargaði vinur minn Gunnar Gunnarsson, sem þá starfaði á Egilstöðum, og ritaði útsetninguna niður á nótur eftir gamalli upptöku sem ég sendi honum austur. Mig minnir að okkur hafi á stundum þótt við vera að leggja út í hörku stríð og þyrftum að hafa alla strategíuna klára.
Okkur fannst að vissu leyti væri þetta prófraun og langt frá því að vera jafn ligeglad eins og þegar Vesturásferðin var farin um árið. Nú voru menn lærðir hagfræðingar, lögfræðingar, læknar, prestar, verkfræðingar og heimspekingar, jafnvel orðnir doktorar. Allar mælitölur urðu að vera klárar, allar tímasetningar að standast upp á hár, og eftirlitið vera þannig að ekkert færi úr böndum. Legið var yfir tímasetningum. Raðað niður og gerðar tillögur um dagskráratriði. Haft samband við talsmenn allra júbilanta og sagt með nokkru stolti: „nú getum við öll júblað saman á Akureyri“.
Hvað með Sjallann, mín kynslóð sem dansað hafði fyrst í Allanum og fært sig svo yfir í Sjallann, nýjan og blautan bak við eyrun. Vorum við að brjóta óskrifuð lög? Ingimar enn að spila og átti erfitt með að viðurkenna að vinnuveitandinn hans hafði neitað honum að fá sig lausan af þessu aðalballi ballanna. Húfuatriðið þar sem Sverrir Páll hafði stjórnað aðfaramarsi með skólalögum MA í ca. 20 mínútur og svo nákvæmlega kl. 12 undir kröftugum söng „Hæ, hó, jibbí, jei..“ yfirgaf hvíti hluti húfunnar þann svarta. Já, þetta var ekki tekið út með sældinni Ingimar skyldi vera um kyrrt í Sjallanum og eins árs stúdentar líka „þessu má ekki breyta“ Sjallinn á þetta. Þessi hefð datt þó niður ári seinna, þegar húfuatriðið og nýstúdentar umdisponeruðust og komu í höllina, Ingimar fylgdi því miður ekki með.
Nákvæmnin í okkur undirbúningsnefndinni var algjör og ég held frekar að Snorri hafi ráðið því en ég. Eitt var öllum gert ljóst sem myndu láta ljós sitt skína í dagskránni að þeir fengju aðeins fimm mínútur og yrðu að vera skemmtilegir. Einn hefði ekki átt að fá slíka áminningu, það var Magnús heitinn, sonur Óskars í Esju hann var svo fyndinn, að ég er næstum viss um að við Snorri hefðum verið tilbúnir að bæta fimm mínútum við og þó hláturkrampi getur verið býsna sár. Við fórum örlítið að ókyrrast kvartettmenn er Ingimar var ekki kominn úr Sjallanum og aðeins mínúta í „sjóvið“. En viti menn maðurinn á mínútunni og við fengum að baða okkur í sviðsljósinu, meira fengu þessar þrjár elskulegu dömur från Sverige undirtektir sem um munaði. Við sungum okkar aukalög og svo var Marri þotinn.
Ýmis atvik tengjast þessum degi og er mér minnisstætt svarið sem Helgi Hálfdánarson, hinn merki apótekari og þýðandi, gaf mér þegar ég hringdi í hann og spurði, hvort hann kæmi norður af því tilefni að verða 6o ára stúdent það árið, og hann svaraði: „Ég hef nú ekki hugsað mér að leggjast í ferðalög í ár“. Við vorum býsna ánægð með okkur fyrir 25 árum.
Bara dálítið öðruvísi, ennþá er Haukur Heiðar öðruvísi læknir, leikur stundum með Ómari og hefur haldið fram hjá læknastarfinu með sífelldri útgáfu dinnertónlistar á CD árum saman, Biggi Karls leikur stundum á gítarinn, Jóhannes og Barbara taka lagið í Sviss og sjálfur hef ég nóg að gera við að vera til, ásamt því, vonandi, að gleðja einn og einn með orðaf og tónaflaumi. Og svei mér þá ef ég finn ekki til gleði að hafa heyrt „hallargleðina“ hljóma í 25 ár orðin dálítið öðruvísi.