Hæ hó jibbí jey! Það verður glatt í höllinni þann 16. júní n.k. þegar hin (eiginlega alltaf) árvissa MA hátíð er haldin og við vonum sannarlega að það verði engin breyting á samkomutakmörkunum eða neinu öðru slíku sem tilheyrir fortíðinni.

Svona hátíð fylgir auðvitað heilmikið skipulag og 25 ára stúdentar eru í ár útskriftarárgangur 1998 sem ætla að halda hátíðina með sóma. Nefndina má finna hér og ef það vakna einhverjar spurningar þá er alveg frjálst að hóa í einhvern úr nefndinni eða senda tölvupóst á jubilantar23@gmail.com

Þessa dagana er verið að vinna að fjárhagsáætlun, finna helstu kostnaðarliði, bóka það sem þarf að bóka og við stefnum á að forsala miða hefjist í apríl og standi til 1. júní. Miðasalan mun fara fram á tix.is og verður nánar auglýst síðar.

Við vonum að afmælisárgangar séu að setja sig í stellingar, fari að grafa eftir góðum sögum til að rifja upp hvert með öðru. Það er einn stærsti kostur þess að hafa útskrifast úr MA að fá að mæta í Höllina með skólafélögunum þar sem allir fara aftur í tímann að menntaskólaárunum eina kvöldstund.

Fylgist með hér og sjáumst í höllinni!